Evrópusambandið og Noregur vilja láta áfram reyna á viðræður um lausn á makríldeilunni. Þetta er niðurstaða fundar Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins, og Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, sem fram fór í gær.
Haft er eftir Aspaker að Norðmenn og Evrópusambandið ætli að halda áfram að samræma aðgerðir sínar í makrílviðræðunum á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins. „Ég harma það að ekki hefur tekist hingað til að komast að samkomulagi. Hins vegar telja norsk stjórnvöld skipta sköpum að viðræðurnar haldi áfram og reynt að ná samkomulagi á milli strandríkjanna.“
Ráðherrann segist fyrir vikið hafa lagt fram tillögu fyrir Damanaki um að viðræðunum verði flýtt og að aukinn þungi verði settur í þær. Þær hafi verið sammála um að halda bæri áfram tvíhliða viðræðum Evrópusambandsins og Noregs um skiptingu makrílstofnsins í náinni framtíð en sambandið hafi óskað eftir því að hlé verði gert á þeim á meðan reynt verði að finna lausn á makríldeilunni.