Páll vill selja útvarpshúsið

Útvarpshúsið í Efstaleiti
Útvarpshúsið í Efstaleiti mbl.is/Sigurður Bogi

Páll Magnússon sagði í Kastljósi að hópuppsagnir eins og þær sem ráðist var í hjá Rúv væru í eðli sínu grimmdarleg aðgerð, en hún hefði ekki verið gerð af skepnuskap. Hann sagði kannski tímabært að endurskilgreina lagalegt hlutverk Rúv og jafnframt að hann teldi rétt að selja húsið í Efstaleiti.

Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss, ræddi við Pál í kvöld, en eins og fram hefur komið í fréttum ríkir mikil reiði meðal starfsmanna Rúv eftir að 39 var sagt þar upp störfum í gær.

„Það er síst verið að ganga of langt, við erum einfaldlega að bregðast við ákvörðunum sem eru teknar einmitt þar, á Alþingi,“ sagði Páll þegar Sigmar bar undir hann umræður þingmanna um uppsagnirnar í dag.

Faglegt mat um nýtingu fjárframlaga

Páll gagnrýndi að þrjár ríkisstjórnir hefðu skorið niður í fjárlögum til Rúv án þess að nokkurn tímann hafi verið um það rætt eða tekin afstaða til þess hvort minnka ætti Rúv. Hann benti á að lögbundið hlutverk Rúv væri margþætt og varðaði bæði fréttir, menningu og afþreyingu.

„Kannski er kominn tími á að endurskilgreina þetta hlutverk í lögum,“ sagði Páll og að ef til vill yrði niðurstaðan sú að Rúv gæti ekki uppfyllt öll þessi hlutverk. En þangað til það yrði gert myndi stofnunin fara að lögum og sinna öllum sviðunum.

Hann sagði að stjórnendur Rúv teldu að með uppsögnunum nú næðist fram besta nýting á þeim fjármunum sem koma til og að yfirmenn allra dagskrársviðanna hafi farið yfir það hvernig hægt væri að spila best úr skertum fjárframlögum. „Það er faglegt mat að það sé með þessum hætti sem við nýtum mest fjármagnið.“

Trúir ekki á pólitískar hefndaraðgerðir

Páll benti á að í gegnum niðurskurð síðustu ára hefði tekist að halda dagskránni „furðu óskertri“ en gengið mjög hart fram á öðrum sviðum. Ekki yrði gengið lengra í að ná niður kostnaði við stjórn og rekstur. „Ég tel reyndar rétt að við seljum þetta hús og flytjum annað,“ bætti hann þó við.

Aðspurður sagðist Páll ekki vilja trúa því að niðurskurðurinn væri einhvers konar hefndarráðstöfun ríkisstjórnarinnar til að reyna að þagga niður í lýðræðislegri umræðu. 

Hann sagðist telja að Rúv geti áfram sinnt þeim skyldum sem því ber. „Við sem hér erum getum ekki annað en reynt að gera okkar besta og búa til eins gott útvarp og sjónvarp og við getum.“ Með færra starfsfólki væri stofnunin hins vegar 25% verr í stakk búin til þess og eðli málsins samkvæmt yrði það því ekki gert eins vel og áður.

Páll Magnússon ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi í kvöld.
Páll Magnússon ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi í kvöld. Skjáskot/Kastljós
mbl.is

Bloggað um fréttina