Hlutverk Framsóknar að leggja niður RÚV?

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Er Framsóknarflokkurinn farinn af þeirri braut að standa vörð um öflugt ríkisútvarp. Að þessu spurði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag og beindi þeirri fyrirspurn að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Rifjaði hún í því sambandi upp ummæli ráðherrans í Kastljósi Ríkisútvarpsins í september síðastliðnum þess efnis að ekki stæði til að skera miklu meira niður hjá stofnuninni en annars staðar.

„Ekki aðeins er það rétt hjá háttvirtum þingmanni að framsóknarmenn hafi verið talsmenn öflugs ríkisútvarps, framsóknarmenn stofnuðu ríkisútvarpið árið 1930. Það var einstaklega góð ríkisstjórn en í henni sátu eingöngu framsóknarmenn og eitt af mörgum afrekum þeirrar ríkisstjórnar var að stofna Ríkisútvarpið,“ sagði forsætisráðherra. Hvað viðtalið í Kastljósinu varðaði sagði hann að það væri rétt að ekki hafi staðið til að skera mikið meira niður hjá Ríkisútvarpinu en annars staðar enda hafi það ekki orðið raunin.

Sigmundur Davíð sagði að því miður þyrfti að spara víða og það ætti ekki eingöngu við um Ríkisútvarpið. Reyndar væru bein framlög til stofnunarinnar frá ríkinu aukin ólíkt mörgum öðrum ríkisstofnunum. Hins vegar myndu möguleikar hennar til þess að selja auglýsingar og afla sér sérstakra styrkja líklega dragast saman vegna lagabreytinga. Lilja tók aftur til máls og spurði hvort það yrði hlutverk framsóknarmanna að leggja Ríkisútvarpið niður eftir að hafa stofnað það á sínum tíma.

Hún spurði ennfremur hvort ekki væri verið að fara inn á þær brautir að brjóta niður stoðir Ríkisútvarpsins og koma í veg fyrir að stofnunin gæti sinnt menningarlegu hlutverki sínu og ennfremur veitt stjórnmálamönnum nauðsynlegt aðhald. Forsætisráðherra sagði hafa sést undanfarna daga að ekki væri verið að draga úr aðhaldinu gagnvart stjórnmálamönnum. Þá væri það ekki ákvörðun stjórnmálamanna hvar væri skorið niður innan stofnana eins og Ríkisútvarpsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is