Talið að bankaupplýsingar séu öruggar

mbl.is/ÞÖK

Engar vísbendingar eru um að brotist hafi verið inn í viðskiptakerfi Vodafone sem innihalda m.a. bankaupplýsingar, eða  fjarskiptakerfi þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun.

„Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar vinnur nú að samræmingu viðbragðsaðgerða og greiningu á umfangi innbrotsins í samstarfi við Vodafone og embætti ríkislögreglustjóra.

Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone var í árásinni stolið upplýsingum um SMS sem send voru í gegnum vefsíðu fyrirtækisins, ásamt lykilorðum að „Mínum síðum“ á Vodafone.is.  Ekki sé um að ræða SMS sem send voru á hefðbundin hátt milli símtækja.  Árásin mun hafa einskorðast við vef Vodafone en er ekki sögð hafa haft áhrif á fjarskiptakerfi fyrirtækisins, svo sem farsímakerfið, netkerfi eða heimasíma. Engum gögnum úr fjarskiptakerfum fyrirtækisins, svo sem upplýsingum um símtöl, SMS milli símtækja, tölvupósti eða öðrum fjarskiptagögnum hafi verið stolið.

Á þessu stigi eru engar vísbendingar um að brotist hafi verið inn í  viðskiptakerfi fyrirtækisins sem innihalda m.a. bankaupplýsingar, eða  fjarskiptakerfi þess.

Þeir viðskiptavinir Vodafone sem hafa notað sömu lykilorð inn á „Mínar síður” á vef fyrirtækisins og annars staðar, svo sem í tölvupóst sinn eða á samfélagsmiðla eru hvattir til að skipta nú þegar um lykilorð á þeim miðlum. 

Hafi notendur sett t.d. lykilorð eða kreditkortaupplýsingar í texta SMS skilaboða sem send hafa verið af „Mínum síðum" á vef Vodafone þurfa þeir að gera viðeigandi ráðstafanir.

„Mínum síðum” á vef Vodafone hefur verið lokað tímabundið. Fyrirtækið vísar viðskiptavinum sínum á www.vodafone.is og facebook síðu fyrirtækisins um nánari upplýsingar.

Netöryggissveit PFS mun halda áfram að rannsaka málið,“ segir enn fremur í tilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun.

mbl.is