Ekki þörf á sértækum aðgerðum

Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já.
Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir ekki ástæðu til þess að bregðast sérstaklega við þeim vanda sem netárásin á Vodafone olli.

Samkvæmt heimildum Mbl.is hafa sumir fundið að því að ekki sé hægt, í ljósi sérstakra aðstæðna, að afskrá sig af ja.is fyrr en í fyrramálið innan hefðbundins skrifstofutíma.

„Þetta er slæmt mál og leiðinlegt að íslenskt fyrirtæki hafi orðið fyrir árás af þessu tagi. Við erum búin að skoða það sem að okkur snýr og teljum ekki þörf á að bregðast við með sértækum aðgerðum. Við fylgjumst sérstaklega með umferð erlendis frá og lokum á þá sem reyna sjálfvirkar fyrirspurnir. Ekki hefur orðið mikil aukning á heimsóknum inn á Já.is í kjölfar netárásarinnar og við höfum aðeins fengið nokkrar beiðnir um afskráningar. Þar sem nöfn, netföng og kennitölur eru í gögnunum þarf fólk ekki Já.is til að finna hver á þessi samskipti, þær upplýsingar má allt eins finna hjá Þjóðskrá.“

Aðspurð segir Sigríður það ekki taka langan tíma að afskrá sig innan skrifstofutíma. „Við tekur hefðbundið ferli. Slík mál ættu ekki að taka langan tíma,“ segir Sigríður.

mbl.is