Boðað hefur verið til fundar um Vodafone-málið í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og að á þann fund kallaðir fulltrúar ríkislögreglustjóra, póst- og fjarskiptastofnunar og innanríkisráðuneytis.
Auk þess verða fulltrúar Vodafone boðaðir á fundinn og hugsanlega annarra fjarskiptafyrirtækja. Fundurinn verður að líkindum haldinn á miðvikudagsmorgun, að sögn Höskuldar Þórhallssonar, formanns nefndarinnar, sem setti fundinn á dagskrá í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, óskaði jafnframt eftir slíkum fundi. Hún telur tilefni til að fara yfir málið, þannig að hið opinbera hafi eftirlit með því að lögum sé fylgt.
Þá sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, í samtali við morgunútvarp Rásar 2 í morgun, að málið væri það alvarlegt að fara verði yfir það hjá stofnunum og hinu opinbera. Hanna Birna sagði að netöryggi sé eitt stærsta öryggismál í heiminum í dag.
mbl.is sagði frá því á laugardag að Vodafone hafi líklega brotið lög um fjarskipti með því að geyma sms-skilaboð fólks allt aftur til ársins 2010.
Í ákvæði laganna um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs segir að gögnum um fjarskiptaumferð notenda skuli gerð nafnlaus og þeim eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf.
Fjarskiptafyrirtækjum ber, í þágu rannsókna og almannaöryggis, að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í 6 mánuði. Að þeim tíma liðnum ber fyrirtækjunum að eyða gögnunum.