Stjórnvöld verða að átta sig á því að verulegur hluti af niðurskurðinum á Landspítala hefur falist í því að ganga nær starfsfólkinu en góðu hófi gegnir. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans. Ekki sé hægt að búast við að starfsfólk haldi út við slíkar aðstæður nema tiltekinn tíma.
„Það er ekki mögulegt að hugsa sér að þetta sé varanlegt ástand,“ segir Páll í viðtali í nýjasta tölublaði Læknablaðsins, sem kom út í dag. Hann segir að verulegur hluti af rekstrarárangi spítalans síðustu misseri hafi í raun verið fenginn að láni „á yfirdrætti í mannauði og endurnýjun tækja og húsnæðis“.
Önnur birtingarmynd vandans er að spítalinn hefur haldið að sér höndum við endurnýjun tækja og viðhald húsnæðis. „Þetta þrennt, úthald starfsfólks, tæki og húsnæði er nú komið að þeim mörkum að ekki verður lengur við unað. Þetta verða stjórnvöld og samfélagið að skilja,“ segir Páll.
Páll segir að í kringum kosningarnar í vor hafi byggst upp væntingar um að komandi ríkisstjórn myndi styrkja heilbrigðiskerfið. Fjárlagafrumvarpið hafi því komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.
„Það var eins og vonin væri tekin frá starfsfólkinu,“ sagði Páll. Hann segir að úr vissum hlutum sé hægt að bæta á spítalanum án þess að viðbótarfjármagn komi til, en það sé einkum tvennt sem knýi á um aðgerðir strax.
„Annars vegar er starfsandi sums staðar erfiður og líðan starfsfólks bág. Það tengist auðvitað að hluta kjörum, en það tengist líka starfsumhverfi, það hefur liðið fyrir skort á fjármagni til rekstrar og viðhalds spítalans.“
Páll segir að í hans huga sé bygging nýs Landspítala löngu tímabær og ekki spurning um hvort heldur hvenær. Hann bendir á að kostnaður við nýjar byggingar gæti verið um 60 milljarðar, en ársvelta spítalans sé um 40 milljarðar og því geti varla talist óraunhæft að byggja á þeim forsendum.
„Rekstur spítalans á ýmsum stöðum í Reykjavík kostar spítalann um 3 milljarða aukalega á ári. Þetta kalla ég að henda peningum út um gluggann,“ segir Páll.