„Þótt þetta séu miklir peningar eru þeir fljótir að hverfa inn í jafn viðamikinn rekstur og starfsemi Landspítalans er. Við þurfum að sýna mikla ráðdeildarsemi til að féð nýtist sem allra best til að auka þjónustu spítalans.“
Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, um tæplega þriggja milljarða kr. viðbótarfjárveitingu sem lögð er til í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis.
Í tillögunum er forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Fara um fjórir milljarðar aukalega til hennar, en ítarlega er fjallað um breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fyrir 2014 í Morgunblaðinu í dag.