„Ekki gleyma fórnarlömbunum

Eitt ár er liðið frá því ungu konunni var nauðgað …
Eitt ár er liðið frá því ungu konunni var nauðgað af sex karlmönnum í Nýju-Delí AFP

Eitt ár er liðið síðan ungri konu var nauðgað hrottalega af hópi karlmanna í strætisvagni í Nýju-Delí á Indlandi. Konan lést nokkru síðar af völdum sára sinna. Faðir hennar biður fólk að gleyma ekki fórnarlömbum nauðgana en málið vakti gríðarlega mikla athygli langt út fyrir landsteinana.

Faðir ungu konunnar, sem var 23 ára er hún lést, segir að það eigi að minnast þessa dags, ekki bara dóttur hans heldur allra fórnarlamba nauðgana. Þannig verði tryggt að konur sem verða fyrir slíku ofbeldi gleymist ekki og hægt verði að tryggja öryggi þeirra.

Móðir hennar segir að hugrekki dóttur sinnar eigi að hvetja aðrar indverskar konur til að berjast gegn slíkum glæpum og brýna raust sína gegn glæpum af þessu tagi.

Sex karlmenn nauðguðu ungu konunni sem var á leið heim úr bíó ásamt vini sínum. Beittu þeir hana skelfilegu ofbeldi og notuðu meðal annars járnstöng við nauðgunina. Hún lést af völdum sára sinna þrettán dögum síðar.

Þegar fréttist af nauðguninni var eins og eitthvað brysti meðal almennings og mótmælt var víða um land en ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á Indlandi er mjög algengt.

Í kjölfarið var lögum landsins breytt og refsingar hertar fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum. Fjórir árásarmannanna voru dæmdir til dauða í september, sá fimmti lést í fangelsi og sá sjötti var dæmdur í unglingadómstól.

Á sama tíma fór tilkynningum um nauðganir að fjölga og þykir það til marks um breyttan hugsunarhátt meðal Indverja, að nauðgun sé glæpur.

Þess er minnst víða á Indlandi í dag að eitt …
Þess er minnst víða á Indlandi í dag að eitt ár er frá því ungri konu var nauðgað hrottalega. AFP
mbl.is