Nýr sjávarútvegsráðherra Danmerkur, Dan Jørgensen, greiddi atkvæði með lagasetningu á Evrópuþinginu fyrir rúmu ári sem veitti Evrópusambandinu heimild til þess að grípa til refsiaðgerða gegn löndum utan sambandsins sem það teldi stunda ósjálfbærar veiðar úr deilistofnum sem það ætti hagsmuna að gæta gagnvart.
Jørgensen var þá þingmaður á Evrópuþinginu fyrir danska Jafnaðarmannaflokkinn en tók við sem sjávarútvegsráðherra síðastliðinn fimmtudag 12. desember. Fjallað er um þetta á færeyska fréttavefnum Portal.fo í dag en víðtækur stuðningur var við lagasetninguna á Evrópuþinginu þegar greidd voru um hana atkvæði.
Fram kemur í fréttinni að engum hafi dulist að lagasetningunni væri meðal annars beint að Færeyjum og Íslandi þó löndin tvö væru ekki nefnd í henni. Hins vegar hafi Danmörk lagst gegn refsiaðgerðum gegn Færeyingum vegna síldveiða þeirra þegar Evrópusambandið greip til þeirra síðastliðið sumar.
Jørgensen sé fyrir vikið nú í þeirri stöðu að þurfa að verja hagsmuni Færeyinga gegn Evrópusambandinu. Spurður hvort það gangi ekki gegn skoðunum hans sem birst hafi í atkvæðagreiðslunni á Evrópuþinginu segir hann að hann vilji ekki fara í einhver smáatriði verðandi tiltekin mál.
Hins vegar sé almennt séð stór munur á því að sitja á Evrópuþinginu og ræða þar um ákveðna lagasetningu með umboð til þess og að bera þá ábyrgð sem fylgdi því að vera danskur ráðherra.