Stjórnvöld á Írlandi styðja ekki tilraunir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, til þess að ná samningum í makríldeilunni. Þetta hefur írski fréttavefurinn Afloat.ie eftir Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, í gær. Segist hann styðja sanngjarna samninga um makríl, síld og kolmunna en hafnar því að Íslendingum og Færeyingum verði úthlutað of stórum hluta makrílkvótans.
„Ég styð ekki núverandi tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að veita Íslendingum og Færeyingum of stóran hluta af makrílkvótanum sem skiptir svo miklu máli fyrir Írland. Makríll er verðmætasti hluti sjávarútvegar okkar og ég hyggst enn á ný krefjast þess að framkvæmdastjórnin vinni náið með Norðmönnum að því markmiði að tryggja samning um sanngjarna skiptingu makrílkvótans í réttum hlutföllum,“ er haft eftir Coveney.
Damanaki hefur boðið Íslendingum 11,9% makrílkvótans og samkvæmt síðustu fréttum bauð hún Færeyingum sama hlutfall fyrir helgi. Færeyingar hafa hafnað því og krefjast 15% kvótans að lágmarki. Íslensk stjórnvöld virðast hins vegar hafa tekið vel í tilboð Evrópusambandsins en áður var krafa Íslendinga 14-16%. Damanaki hefur ekki haft samráð við norsk stjórnvöld varðandi þessi tilboð en til þessa hafa Evrópusambandið og Norðmenn staðið saman í makríldeilunni.