Magnús Ragnar Einarsson, starfandi dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, telur eðlilegast að stjórn RÚV augslýsi stöðu dagskrárstjóra samhliða stöðu útvarpsstjóra. Stjórn Ríkisútvarpsins kemur til fundar síðar í dag þar sem þessi mál verða rædd og einnig hver taki tímabundið við starfi útvarpsstjóra.
Í samtali við mbl.is segir Magnús að hann hafi verið fenginn til að gegna starfinu tímabundið eftir að Páll Magnússon, þáverandi útvarpsstjóri, ákvað í nóvember að ráða ekki í stöðuna. Fimmtán umsóknir bárust um stöðu dagskrárstjóra útvarps en Páll ákvað að fella niður það ferli sem hófst í október með auglýsingu starfsins.
Magnús segir að um munnlegan samning hafi verið að ræða við útvarpsstjóra um að hann gegndi starfinu þar til endanleg ákvörðun um tilhögun starfsins yrði tekin. Í ljósi mikilla breytinga innan Ríkisútvarpsins mun hann fara fram á það við stjórn RÚV að staðan verði auglýst sem fyrst, og þá samhliða stöðu útvarpsstjóra. Hann muni þó áfram gegna starfinu þar til ráðið verður en hverfa í kjölfarið til annarra starfa innan RÚV.