Stefna að undirskrift samninga í dag

Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, og Gylfi Arnbjörnsson, …
Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ræðast við. mbl.is/Golli

Vonast er eftir að skrifað verði undir nýja kjarasamninga milli landssamtaka ASÍ og Samtaka atvinnulífsins síðar í dag. Samningurinn felur í sér tæplega 5% hækkun til þeirra sem eru með lægstu launin, en almenna hækkunin er 2,8%.

Forystumenn landssambandanna hafa í morgun verið að kynna samningsdrög fyrir samninganefndum sínum. Kl. 13 kemur samninganefnd ASÍ saman hjá ríkissáttasemjara og reiknað er með að á fundinum verði tekin ákvörðun um hvort skrifað verði undir þau samningsdrög sem nú liggja á borðinu.

Samningsdrögin fela í sér 2,8% almenna launahækkun. Laun þeirra sem lægstu launin hafa hækka um tæplega 5%. Meðaltalshækkunin er tæplega 10 þúsund krónur á mánuði en enginn fær minni hækkun 8.000 krónur.

Fundur stóð fram á nótt

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði eftir fund með landssamböndum ASÍ í gærkvöldi að menn væru nálægt því að ná saman, en ASÍ hefði vonast eftir að ríkisstjórnin kæmi meira til móts við kröfu sambandsins varðandi hækkun skattleysismarka.

Eftir formannafundinn settust samninganefndir ASÍ og Samtaka atvinnulífsins aftur niður við samningaborðið. Fundurinn stóð yfir til kl. 13 í nótt.

Draga hækkun gjalda til baka að hluta

Eftir að ljóst varð að stjórnvöld voru ekki tilbúin til að hækka skattleysismörkin reyndu samningamenn ASÍ að þrýsta á stjórnvöld um að draga til baka allar hækkanir á gjaldskrá sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu. Gjaldskrárhækkanirnar eiga að skila ríkissjóði 1,8 milljörðum í auknum tekjum. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa stjórnvöld boðist til að draga til baka hækkanir sem nema 400 milljónum.

Fyrir liggur að gerðar verða breytingar á skattþrepum í tekjuskatti sem felur í sér að skattalækkunin sem boðuð var í fjárlagafrumvarpinu nýtist betur þeim sem eru með lægstu launin.

Helsta ágreiningsefni ASÍ og SA í viðræðunum hefur verið krafa ASÍ um að sérstök hækkun komi á lægstu launataxta. Samninganefnd SA hefur hins vegar komið til móts við ASÍ í því máli.

Samningurinn sem nú liggur á borðinu er til 12 mánaða, en samningsaðilar stefna að því að gera langtímasamning þegar hann rennur úr gildi.

mbl.is