„Við munum ekki taka þennan samning hráan upp,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR og varaformaður BSRB, þegar hann er spurður hvernig honum lítist á nýgerðan kjarasamning landsambanda ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.
„Við höfum verið með talsvert aðrar áherslur en hafa komið fram hjá hinum almenna markaði. Annars vegar höfum við sett fram mjög sterka kröfu um að laun á almennum markaði og laun opinberra starfsmanna verði samræmd. Munurinn er allt of mikill og við viljum að tekin verði skrefi í þá átt að draga úr honum. Eftir heimsókn aðila vinnumarkaðarins til Norðurlandanna, fyrr á þessu ári, var tekin saman skýrsla um þróun launa á undanförnum árum og þar kemur fram að launaskrið á almennum markaði hefur verið mun meira en hjá opinberum starfsmönnum. Munurinn hefur því heldur verið að aukast.
Hins vegar höfum við í undanförnum samningum verið að reyna að taka skref varðandi kynbundinn launamun. Í síðustu samningum, árið 2011, sömdum við um svokallaðan launapott sem fól í sér sérstaka leiðréttingu til kvennahópa. Við leggjum mikla áherslu á að því verki verði haldið áfram. Það hefur orðið árangur af þessu verkefni. Núna síðast mældist 7% kynbundinn launamunur sem er með því lægsta sem við höfum séð. Það er út af þessum aðgerðum.
Þessi samningur sem gerður var í gær er því ekki fyrirmynd hvað okkur varðar. Það vantar töluvert á það,“ sagði Árni Stefán.
Kjarasamningar opinberra starfsmanna renna út í lok janúar. Árni Stefán sagði að viðræður væru hafnar og þær gengu út á að gera samning til skamms tíma, m.a. vegna þess að menn vildu sjá betur hvað ríkisstjórnin ætlaði sér. Hann sagði að aðgerðir sem hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar kynnti í vetur kæmu við opinbera starfsmenn og þetta væri eitt af því sem þeir vildu ræða um við stjórnvöld.