Árið 2013 námu tekjur ríkissjóðs af almennu veiðigjaldi á makríl um 409 milljónum króna og 290 milljónum árið 2012.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur þingmanns um makrílkvóta.
Á fiskveiðiárinu 2012/2013 var tekið upp sérstakt veiðigjald og er áætlað að 854 milljónir króna hafi verið innheimtar vegna gjaldsins á makríl á árinu 2013. Þá segir í svarinu að árið 2014 megi ætla að sérstakt veiðigjald af makríl muni hækka, en með breytingu á lögum um veiðigjöld var veiðigjald á makríl hækkað um 40% frá fyrra fiskveiðiári.