Enn mikill vandi á Landspítala

Mikill skortur er enn á deildarlæknum á Landspítalanum.
Mikill skortur er enn á deildarlæknum á Landspítalanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Friðbjörn Sigurðsson, yfirlæknir almennra lyflækninga á Landspítalanum, segir að enn sé mikill skortur á læknum á lyflæknissviði. Unnið sé að því að bæta stöðuna en það taki tíma. Hann segir að kerfið er mjög viðkvæmt og ef það verði forföll þá skapi það mikinn vanda og aukið álag.

Í haust hætti stór hópur deildarlækna störfum á Landspítalanum. Mikið álag og óánægja með starfsskilyrði átti stóran þátt í því. Friðbjörn var spurður hvort tekist hefði að bæta mönnun á síðustu vikum.

„Það er búið að gera heilmikið. Við höfum unnið að því að bæta umgjörðina um framhaldsnámið. Það er búið að ráða nokkra kennslustjóra til að halda utan um framhaldsnámið í lyflækningum. Við erum að vona að á næstu mánuðum batni mönnunin. En það verður að viðurkennast að við erum enn í töluverðum vanda,“ sagði Friðbjörn.

Friðbjörn sagði að Ísland hefði talsvert mikla sérstöðu varðandi menntun lækna. Annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum væru læknar í fullu sérnámi inn á spítölunum. Hér á landi væru læknar við störf í 2-3 ár og færu síðan út til framhaldsnáms og væru þar í 5-9 ár. „Í Evrópu og í Ameríku er skortur á ungum læknum, en þetta fyrirkomulag gerir okkur sérlega erfitt fyrir. Við máttum alls ekki verða við þessu hruni sem varð í haust þegar stór hópur ungra lækna kærði sig ekki um að vinna lengur hjá okkur á Landspítalanum.

Við erum að vonast eftir að nú sé hægt að snúa hlutunum við. Það er búið að samþykkja aukafjárveitingu í fjárlögum og heilbrigðisráðuneytið hefur markað þá stefnu að botninum sé náð og leiðin liggi upp á við.“

Tekur tíma að snúa þróuninni við

Friðbjörn sagði að það tæki tíma að snúa þróuninni við. Mikilvægt væri að bæta starfsumhverfi lækna. „Álagið á sérfræðilækna hefur verið alveg gríðarlegt. Mikil vinna sem ungu læknarnir áður sinntu hefur bæst ofan á vinnu sérfræðilæknanna, sem eru misvel í stakk búnir til að taka við svona viðbótarvinnu.“

Friðbjörn sagði að þegar forföll yrðu hjá ungum læknum, vegna veikinda þeirra, gæti skapast erfitt ástand. „Kerfið er mjög viðkvæmt og ef það verða forföll skapar það mjög mikinn vanda og aukið álag.“

Læknar verða veikir eins og annað fólk

Hjörleifur Skorri Þormóðsson læknakandídat segir að mikið álag hafi verið á ungum læknum um jólin, m.a. vegna forfalla. „Það komu upp veikindi meðal lækna og mönnunin er það tæp að ástandið verður mjög erfitt þegar það gerist. Læknar verða veikir eins og annað fólk og þeir eiga líka veik börn.“

Hjörleifur segir að grunnvandinn sé að það vanti sárlega fleiri deildarlækna á lyflæknissviðið. Afleiðingin sé sú að það aukist álag á sérfræðinga og læknakandídatar neyðist til að teygja sig inn á starfssvið deildarlækna til að bjarga málum.

Friðbjörn Sigurðsson
Friðbjörn Sigurðsson mbl.is
mbl.is