Er hægt að láta laga fíngerðar hrukkur án þess að fara í andlitslyftingu? spyr lesandi Smartlands Mörtu Maríu. Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir í Dea Medica veit svarið við þessu.
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Þú ert væntanlega að spyrja um fíngerðar hrukkur í andlitinu. Skjólstæðingar mínir spyrja stundum um hvort hægt sé að laga fíngerðar hrukkur í kinnum án andlitslyftingar. Ef ekki er strekkt á húðinni er í stökum tilfellum hægt að setja fyllingu undir húðina og slétta þannig úr hrukkunum. Þessar fíngerðu hrukkur eru oft meira áberandi hjá grönnum einstaklingum. Oftast kemur best út að nota sk. fitufyllingu (lipofilling) ef hrukkurnar eru dreifðar um kinnarnar. Þá er eigin fita einangruð, hreinsuð og sprautað aftur undir húðina, undir fíngerðu hrukkurnar í þessu tilfelli. Ef notuð eru s.k. fylliefni (hyaluronic acid) þarf margar sprautur og það er mjög kostnaðarsamt. Leysimeðferð getur í sumum tilfellum grynnt hrukkur, þ.e. gert þær minna áberandi. Oftast þarf þá endurteknar meðferðir.
Fylliefni er upplagt að nota í fíngerðar hrukkur í andlitinu þegar svæðið er afmarkað.
Ef margar fíngerðar hrukkur eru í kinnunum og viðkomandi vill ekki fá fyllingu í andlitið þá er oft ekki um annað að ræða en andlitslyftingu.
Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? HÉR getur þú sent Þórdísi spurningu.