ESB styðji tillögu Norðmanna

Stjórn­völd á Írlandi vilja að Evr­ópu­sam­bandið styðji til­lögu sem norsk stjórn­völd hafa lagt fram um lausn á mak­ríl­deil­unni. Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að Íslend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar fái mun lægri hlut­deild í ár­leg­um mak­ríl­kvóta en til­laga fram­kvæmda­stjórn­ar sam­bands­ins þar sem ís­lensk­um og fær­eysk­um stjórn­völd­um hef­ur verið boðið 11,9%.

Fjallað er um þetta á frétta­vef írska dag­blaðsins Irish Times. Þar seg­ir að írsk stjórn­völd með Simon Co­veney sjáv­ar­út­vegs­ráðherra í far­ar­broddi hafi hvatt fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins til þess að styðja til­lögu Norðmanna um sann­gjarna skipt­ingu mak­ríl­kvót­ans. Ekki hef­ur hins veg­ar komið fram hver til­laga norskra stjórn­valda er ná­kvæm­lega. Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Nor­egs, Elisa­beth Asp­a­ker, vildi aðspurð ekki upp­lýsa það í sam­tali við norska sjáv­ar­út­vegs­blaðið Fiskar­en 23. des­em­ber síðastliðinn.

Sjáv­ar­út­vegs­nefnd Evr­ópuþings­ins hef­ur líkt og Írar lagt áherslu á sam­ráð við Norðmenn í mak­ríl­deil­unni. Skömmu fyr­ir jól ít­rekaði nefnd­in þá af­stöðu sína í skila­boðum til Mariu Dam­anaki, sjáv­ar­út­vegs­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins. Það yrðu mis­tök að semja við Íslend­inga og Fær­ey­inga án sam­ráðs við norsk stjórn­völd. Þar var enn­frem­ur lýst áhyggj­um af því að Dam­anaki væri að gefa of mikið eft­ir í viðræðum við Íslend­inga og Fær­ey­inga. Fljót­færni í þeim efn­um gæti haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir framtíð sjáv­ar­út­vegs inn­an sam­bands­ins.

mbl.is