Lífstíðarfangelsi fyrir nauðgun

AFP

Indverskur karlmaður var dæmdur í lífstíðarfangelsi í Mumbai á Indlandi í dag fyrir að hafa brotist inn hjá spænskri konu í borginni og nauðgað henni og hótað með hnífi.

Mohammed Badshah Ansari, 28 ára, braust inn í íbúð konunnar í nóvember í fyrra og nauðgaði henni. Fórnarlambið, sem var í námi á Indlandi, yfirgaf landið eftir árásina og bar hún vitni í gegnum upptöku við réttarhöldin.

Ansari á að baki langan brotaferil en fyrr í mánuðinum var hann dæmdur sekur um nauðgun, rán og innbrot.

Eftir að konu var hópnauðgað á Indlandi fyrir ári með þeim afleiðingum að hún lést af völdum sára sinna hafa refsingar fyrir slík brot þyngst. Í síðustu viku voru þrír Nepalar dæmdir í 20 ára fangelsi fyrir að hafa hópnauðgað bandarískum ferðamanni í júní í Himachal Pradesh.

mbl.is