Ár liðið frá dauða ungu konunnar

AFP

Indverjar minnast þess á morgun að eitt ár er liðið frá því 23 ára kona lést af völdum áverka sem hún hlaut er henni var nauðgað af hópi manna í strætisvagni í Nýju-Delí.

Konan, sem var nemi í sjúkraþjálfun, var á leið heim úr bíói ásamt félaga sínum tveimur vikum fyrr er sex menn réðust á þau og veittu henni skelfilega áverka sem drógu hana til dauða. Gríðarleg reiði braust út í landinu og víðar og krafðist fólk þess að árásarmennirnir yrðu látnir gjalda fyrir glæp sinn. 

Fjölskylda ungu konunnar mun halda samkomu í þorpinu sem þau bjuggu áður í svo þau losni við kastljós fjölmiðla. Að sögn bróður hennar hefur áreitið verið nánast stöðugt frá árásinni.

„Við viljum minnast hennar á friðsælan hátt, fjarri kastljósinu. Við viljum að þetta verði fjölskyldustund,“ segir bróðir hennar.

Fylgt verður hefðbundinni hindúa hefð, með bænum og táknrænum óskum til forfeðra en með því er talið að sá látni öðlist frið.

Unga konan hlaut mikið lof fyrir að hafa leitað til lögreglu og lagt fram kæru áður en hún lést en árásarmennirnir notuðu meðal annars járnstöng við nauðgunina. Fjórir árásarmannanna voru dæmdir til dauða í september á meðan sá fimmti var dæmdur til vistunar í unglingafangelsi. Sá sjötti lést í fangelsi í mars og er talið að hann hafi framið sjálfsvíg.

mbl.is