Vaxandi ólga er í indversku borginni Kalkútta vegna 16 ára stúlku sem var nauðgað tvo daga í röð. Hún kveikti í sér á Þorláksmessu.
Nokkrir menn nauðguðu stúlkunni 26. október sl. Hún fór til lögreglunnar daginn eftir og kærði nauðgunina. Þegar hún snéri heim af lögreglustöðinni tóku ofbeldismennirnir á móti henni og nauðguðu henni aftur.
Á Þorláksmessu kveikti hún í sér, að því er fram kemur á BBC. Hún lést á þriðjudaginn af sárum sem hún hlaut í brunanum.
Faðir stúlkunnar hefur sagt að dóttir sín hafi ekki framið sjálfsmorð heldur hafi þeir sem nauðguðu henni kveikt í henni.
Fjölmiðlar hafa gagnrýnt lögregluna í Kalkútta harðlega eftir að upplýst var að hún hefði reynt að koma í veg fyrir að faðir stúlkunnar boðaði fólk til að vera viðstatt bálför dóttur sinnar. Fjölmiðlar á Indlandi segja að lögreglan hafi krafist þess að bálförin færi fram fyrir dögun og hafi hótað að brjótast inn til fjölskyldunnar til að ná dánarvottorðinu en það var skilyrði þess að bálförin gæti fara fram.
Lögreglan hefur neitað þessum ásökunum, en segir að hún hafi reynt að halda uppi lögum og reglu í borginni.
Mikil umræða varð um kynbundið ofbeldi á Indlandi á nýliðnu ári. Tvítugri konu var nauðgað á aðfangadagskvöld af hópi manna í suðurhluta Indlands. Tæpt ár er síðan ungri konu var nauðgað af mörgum mönnum um borð í strætisvagni í Nýju-Delí. Hún lést eftir árásina og í kjölfar nauðgunarinnar mótmæltu Indverjar ítrekað kynbundnu ofbeldi sem er faraldur í landinu.