Kjaraviðræður hefjist í lok janúar

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að landssambönd ASÍ og Samtaka atvinnulífsins stefni að því að hefja viðræður um gerð nýs kjarasamnings strax í lok janúar á þessu ári. Nýgerður kjarasamningur á að gilda út þetta ár.

Kristján segir á heimasíðu RSÍ, að stærsti þátturinn í nýgerðum kjarasamningum er að nú ætli menn að færa viðræður úr kjaradeiluformi, þar sem kjarasamningar eru fallnir úr gildi og launafólk bíður eftir að fá launahækkun, í það form að nýr kjarasamningur taki við strax og eldri samningur renni úr gildi. Hann segir að reynsla sýni að viðræður um gerð nýs samnings taki stundum upp undir hálft ár. „Í stað þess að vera í viðræðum í slíkum aðstæðum þá ætla aðilar að hefja viðræður um endurnýjun kjarasamninga strax í lok janúar 2014 með því að leggja fram kröfur aðila vegna endurnýjunar samninga. Í kjarasamningum koma fram tímasetningar vegna annarra þátta og í raun er búið að varða viðræðuleiðina allt árið.

Með þessu móti ætlum við að reyna að ljúka gerð nýrra kjarasamninga áður en þeir sem gildandi eru renna út. Ef þetta tekst með þessum hætti má segja að aðilum hafi tekist að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga nokkuð til samræmis við það sem gerist hjá frændum okkar á Norðurlöndum.

Fólk kallar eftir bættum vinnubrögðum. Fólk kallar eftir raunverulega bættum kjörum. Fólk kallar eftir stöðugleika til samræmis við nágrannalönd okkar. Við þurfum að nýta það tækifæri sem okkur gefst núna til þess að ná fram bættum kjörum launafólks, ná fram aga í efnahagsstjórn og í peningastefnu okkar Íslendinga. Afar mikilvægt er að halda gengi íslensku krónunnar sem stöðugustu enda eru sveiflur á genginu eldiviður í hækkunum verðlags, veiking skilar sér í hækkuðu verði en styrking skilar sér seint og mjög illa,“ segir Kristján.

Verkalýðsfélögin og landssamböndin innan ASÍ eru þessa dagana að undirbúa kynningu á nýgerðum kjarasamningum. Atkvæðagreiðsla hefst í kjölfarið, en henni á að vera lokið í síðasta lagi 22. janúar.

mbl.is