Reikna má með að allt að 200 ný störf verði til í landvinnslu á fiski á þessu ári, því sjávarútvegsfyrirtækin auka nú starfsemi í húsum sínum en draga úr vinnslu og frystingu í skipum á hafi úti. Verð á sjófrystum afurðum hefur lækkað um 14% á tveimur árum, auk þess sem kostnaður hefur aukist.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, að verði þorskkvóti aukinn á næsta fiskveiðiári, eins og margt bendir til, fjölgi störfum í fiskvinnslu enn meira.
Hjá HB-Granda hefur landvinnslufólki fjölgað um 50 síðasta árið. Fyrirtækið hefur selt einn frystitogara og er að breyta öðrum í ísfiskskip. Svipað er uppi á teningnum hjá Þorbirni í Grindavík. Á móti þessu kemur að sjómönnum fækkar.