Veita fjölskyldu fórnarlambsins vernd

Kynbundið ofbeldi á Indlandi hefur loks komist í kastljós fjölmiðla
Kynbundið ofbeldi á Indlandi hefur loks komist í kastljós fjölmiðla AFP

Indverskur dómstóll hefur úrskurðað að fjölskylda stúlku sem var í tvígang hópnauðgað og hún svo myrt fái vernd en fjölskyldunni hafa borist ítrekaðar hótanir frá mönnum sem nauðguðu stúlkunni.

Fjölskyldan leitaði til hæstaréttar í Kolkata vegna hótana sem fjölskyldunni hafa borist, að sögn föður stúlkunnar sem var sextán ára gömul. Hún lést á gamlársdag af völdum sára sinna en kveikt var í henni á Þorláksmessu.

Faðir stúlkunnar segir að henni hafi verið nauðgað í tvígang af sama hópnum, fyrst þann 26. október sl. og síðan aftur daginn eftir. Þá var hún á leið heim til bæjarins Madhyagram frá lögreglustöðinni þar sem hún hafði lagt fram kæru á hendur mönnunum sem nauðguðu henni daginn áður.

Fjölskyldan flutti í kjölfarið en glæpamennirnir eltu hana uppi og kveiktu í stúlkunni á heimili fjölskyldunnar þann 23. desember.

Faðir hennar segist vongóður um að réttlætið nái að sigra að lokum eftir að hæstiréttur úrskurðaði að fjölskyldan ætti rétt á vernd.

Eins krefur hæstiréttur embætti saksóknara að leggja allt kapp á rannsókn málsins og hefur rannsóknin verið flutt frá héraðssaksóknara til sérstakrar rannsóknarstofnunar. Fjölskyldan sem og baráttufólk gegn kynbundnu ofbeldi á Indlandi kvartar undan aðgerðarleysi yfirvalda í Vestur-Bengal ríki og telur að allt of lítið hafi verið að gert. Lögreglan handtók og kærði sex menn fyrir árásirnar en það var ekki gert fyrr en eftir að þeir höfðu kveikt í stúlkunni og myrt.

mbl.is