Félags vélstjóra og málmtæknimanna hefur sent frá sér tilkynningu vegna verðhækkana í þjóðfélaginu. Eins hefur verkalýðsfélagið Framsýn sent frá sér tilkynningu um reiði meðal iðnaðarmanna fyrir norðan vegna kjarasamninga.
Ályktun félagsfundar VM
„Félagsfundur VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna, þann 09. janúar 2014 að Stórhöfða 25,
fordæmir þær vöruverðshækkanir og hækkanir á opinberri þjónustu ríkis og sveitarfélaga
sem nú þegar hafa komið fram og eru í farvatninu.
Ein helsta forsenda kjarasamninga sem gerðir voru 21. desember er að verðbólga verði lág og kaupmáttur í landinu aukist.
Til þess að þetta megi takast er mikilvægt að opinberir aðilar og verslunar- og þjónustufyrirtæki standi í lappirnar og haldi aftur af verðhækkunum.
Sveitarfélög víðs vegar um landið hafa brugðist vel við kallinu. Nú berast hins vegar váleg tíðindi af fyrirtækjum og opinberum aðilum sem tilkynnt hafa verðhækkanir og eru þar með að vinna gegn markmiðum þess kjarasamnings sem undirritaður var fyrir jól.
Þessi fyrirtæki ögra ekki bara launafólki í landinu heldur eins þeim stöðugleika og kaupmáttaraukningu sem er leiðarljós kjarasamningsins.
Fundurinn krefst þess að þær verðhækkanir sem nú þegar eru komnar fram, verði dregnar til baka.
Jafnframt hvetur fundurinn félagsmenn VM til að fylgjast með verðhækkunum og sniðganga þau fyrirtæki og verslanir sem grípa til hækkana.
Fundurinn lítur þannig á að verðbólguhvati þessa kjarasamnings sé innan við 1%.“
Iðnaðarmenn gagnrýna harðlega kjarasamning
„Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum stóð fyrir kynningarfundi á Húsavík í gærkvöldi um nýgerðan kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins. Heitar umræður urðu um niðurstöðu samningsins sem mönnum fannst alls ekki ásættanleg. Þá var persónuafsláttinn ræddur svo og þær hækkanir sem boðaðar hafa verið hjá hinu opinberra, sveitarfélögum og þjónustuaðilum þrátt fyrir yfirlýsingar um að halda aftur af hækkunum til að tryggja stöðugleika í þjóðfélaginu.
Verði niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni í takt við umræðuna á fundinum í gær verður kjarasamningurinn kolfelldur. Þá kom fram hörð gagnrýni á nýlega auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins og á verkalýðsforystuna, það er sérstaklega á forystu ASÍ og Samiðnar. Því var velt upp hvort eðlilegt væri að forseti ASÍ sitji í skjóli 200 félagsmanna af um 100 þúsund félagsmönnum aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Almenn óánægja er með framgöngu forsetans í umræðunni að undanförnu þar sem óljóst þykir fyrir hverja hann er að vinna.“