Umsækjendur um starf útvarpsstjóra verða að öllu óbreyttu kynntir síðdegis í dag, að sögn Ingva Hrafns Óskarssonar, stjórnarformanns Ríkisútvarpsins. Umsóknarfresturinn rann út á miðnætti í gær.
Auglýst var fyrst eftir nýjum útvarpsstjóra hinn 21. desember. Upphaflega átti fresturinn að renna út 6. janúar en hann var framlengdur til 12. janúar.
Ráðningarferlið er í höndum Capacent og verður ákvörðun um ráðningu tekin í samvinnu við stjórn RÚV.
Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði upp störfum hinn 17. desember síðastliðinn og hefur Bjarni Guðmundsson, aðstoðarmaður útvarpsstjóra, gegnt starfi hans frá þeim tíma.