„Það er mín von að við náum fram þjóðarsátt varðandi verðlagið. Það þýðir að sjálfsögðu gríðarlegan ávinning fyrir neytendur,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, og vísar til átaks aðila vinnumarkaðarins í að halda niðri verðlagi í tengslum við nýgerða kjarasamninga.
Henný Hinz, hagfræðingur á hagdeild Alþýðusambands Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að átakið hafi hreyft mjög við mönnum og að fólk hafi að undanförnu sent inn ábendingar um verðhækkanir verslana og fyrirtækja.