Lagað með bótoxi

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. mbl.is/Styrmir Kári

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir er hér spurð að því hvort hægt sé að stöðva hrukkumyndun á milli augnanna.

Sæl Þórdís,

Ég er 32 og með fína húð, nema eina sívaxandi hrukku milli augnanna. Hún vex bæði upp og niður sama þótt ég reyni eftir bestu getu að vera afslöppuð til augnanna.

Mig langar að vita:

1. Er hægt að koma í veg fyrir frekari þróun þessa ófagnaðar á eðlilegan máta?

2. Er einhver meðferð sem slakar á ennisvöðvum svo ég sé ekki stanslaust að hrukka á mér ennið?

3. Er hægt að láta bölið hverfa og þá hvernig?

Kveðja, ein 32 ára

Sæl og takk fyrir spurningarnar.

Já, vissulega er hægt stöðva þróunina á þessum „ófögnuði“ og bótox er best til þess fallið. Bótox er lyf sem hefur verið notað í yfir 100 ár og slakar á eða lamar vöðva þar sem því er sprautað. Það var uppgötvað af tilviljun að það virkaði vel í litlum skömmtum í hrukkur á enni og hefur verið notað af lýtalæknum um allan heim síðan 1987. Nýlega hefur „spennuhöfuðverk“ verið bætt við ábendingar í lyfjaskrá þar sem bótox getur virkað vel. Notað á réttan hátt slakar það á vöðvum í enni og sléttir úr hrukkum. Það er hægt að fylla upp í þessa einu hrukku með fylliefni en það kemur ekki í veg fyrir frekari þróun á þessari hrukku eins og bótox gerir.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.

Liggur þér eitthvað á hjarta? HÉR getur þú sent Þórdísi Kjartansdóttur spurningu.

mbl.is