Indverska lögreglan hefur handtekið hóp heimilislausra manna í Nýju-Delí en mennirnir eru grunaðir um að hafa nauðgað danskri konu síðdegis í gær.
Konan hafði villst og týnt hópnum sem hún var með. Spurði hún menninga til vegar en þeir námu hana á brott og nauðguðu. Samkvæmt Politiken á einn maður að hafa narrað konuna með sér þar sem hinir mennirnir biðu.
Konan hafði verið ásamt félögum sínum í skoðunarferð á safni í borginni og var hópurinn að fara á hótel sitt í Paharganj hverfinu er hún varð viðskila við hópinn.
Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar héldu mennirnir konunni fanginni í þrjá tíma og beittu hana ofbeldi, bæði kynferðislegu sem og öðru. Stálu þeir farsíma hennar og peningum.
Samkvæmt Politiken á einn maður að hafa narrað konuna með sér þar sem hinir mennirnir biðu.
Að sögn lögreglu neitaði konan að fara í læknisskoðun og var greinilega í áfalli er hún var yfirheyrð í viðurvist sendiherra Danmerkur í gærkvöldi. Hún gat lýst mönnunum og hefur lögreglan handtekið sex unga karlmenn sem eru grunaðir um verknaðinn.
Sendiherra Danmerkur segir að sendiráðið veiti konunni alla þá aðstoð sem hún þurfi á að halda. Mjög misvísandi fréttir hafa borist um hvort konan sé enn í Indlandi en samkvæmt dönskum fjölmiðlum er hún farin frá Indlandi og á leið heim til Danmerkur.
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að pólskri konu hafi verið nauðgað af leigubílstjóra eftir að hafa verið byrlað lyf. Tveggja ára gömul dóttir konunnar var viðstödd.