Viðræðufundur hófst í London í dag um lausn makríldeilunnar á milli Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja og er gert ráð fyrir að hann standi fram á föstudag. Litið er á fundinn sem úrslitatilraun til þess að finna lendingu í deilunni áður en ríkin fara að gefa út kvóta vegna veiða á þessu ári.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn í Ríkisútvarpinu síðastliðinn sunnudag að hann væri ekki bjartsýnn á að lausn fengist á fundinum. Fram kemur hins vegar á fréttavefnum The Fish Site í dag að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telji að hægt ætti að vera að koma til móts við allar sanngjarnar kröfur deiluaðila. Það mat byggi á viðræðum sem Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hefði átt við pólitíska forystumenn ríkjanna.
Haft er eftir Damanaki að fundurinn í London feli í sér gullið tækifæri til fyrir deiluaðila til þess að ná samkomulagi í ljósi þeirrar niðurstöðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í haust þar sem fram kom að makrílstofninn væri miklu stærri en áður hefði verið talið. Sagði hún að ekki væri víst að slíkar kjöraðstæður sköpuðust aftur síðar.