Indverska lögreglan hóf í dag umfangsmikla leit að mönnum sem grunaðir eru um að hafa nauðgað dönskum ferðamanni. Þrír menn hafa verið handteknir í gær og í dag vegna málsins en fjögurra er enn leitað.
Í gær handtók lögreglan tvo heimilislausa menn sem taldir eru hafa tekið þátt í nauðguninni. Konan sem þeir nauðguðu var á ferðalagi um Indland en hafði villst og spurði mennina til vegar. Hún er 51 árs.
Þriðji maðurinn var svo handtekinn í dag. Sá er 23 ára. Leitin fór fram í Delí og þar fannst maðurinn. Lögreglan segist þess fullviss að hún muni finna mennina sem enn er leitað.
Mennirnir tveir sem handteknir voru seint í gærkvöldi voru í dag úrskurðaðir í þriggja daga gæsluvarðhald vegna málsins.
Lögreglan segir að mennirnir séu ungir að aldri. Þeir hafi haldið konunni í þrjá tíma, hótað henni með hnífi og nauðgað.
Í dag voru 15 heimilislausir menn á svæðinu þar sem nauðgunin átti sér stað yfirheyrðir.