Veittu upplýsingar um nauðgarana

Amax hótelið þar sem danska konan gisti
Amax hótelið þar sem danska konan gisti AFP

Indverska lögreglan leitar nú fleiri manna sem taldir eru hafa nauðgað danskri konu í Nýju-Delí síðdegis á þriðjudag. Tveir heimilislausir menn voru handteknir vegna málsins í gær en talið er að árásarmennirnir hafi verið átta talsins.

Danska konan var á ferðalagi ásamt hópi fólks. Hún varð viðskila við hópinn á leiðinni á hótel og spurðist til vegar skammt frá aðaljárnbrautarstöðinni.

„Við höfum þegar handtekið tvo af þeim átta sem eru grunaðir í málinu og leitum nú að þeim,“ segir yfirmaður í lögreglunni í Nýju- Delí, Alok Kumar í samtali við AFP.

Fimmtán heimilislausir menn voru yfirheyrðir vegna málsins í gær en mennirnir tveir sem voru handteknir hafa veitt upplýsingar um aðra sem tóku þátt í árásinni að sögn Kumar. 

Samkvæmt fréttum Ritzau og Times of India er annar mannanna sem var handtekinn í gær talinn leiðtogi hópsins. Hann er 25 ára gamall og tengist tveimur morðmálum. Í frétt Times of India kemur fram að konunni var nauðgað í litlum garði sem er umlukinn trjám. Var konunni haldið þar í þrjár klukkustundir eftir að hafa spurt höfuðpaurinn til vegar um fjögurleytið síðdegis.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu sagði konan frá því hvernig þeir hafi beint hnífum að henni og hótað. Þeir tóku af henni allt reiðufé auk annarra muna.

Konan átti pantað flug til Kaupmannahafnar í gærmorgun og krafðist þess að fá að fara heim. Lögreglan fylgdi henni í flugið en samkvæmt frétt Politiken var hún í áfalli og leið nokkrum sinnum yfir hana á flugvellinum.

Danskri konu nauðgað af hópi

AFP
mbl.is