Þriggja daga fundi strandríkja um stjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi er um það bil að ljúka í London núna á hádegi. Niðurstaða náðist ekki á fundinum, en ákveðið hefur verið að aðilar komi á ný saman á miðvikudag í næstu viku.
Aðspurður um árangur á fundinum vill Sigurgeir Þorgeirsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, ekki tjá sig, en segir að það gefi vísbendingar að málin verði rædd áfram. Auk Íslands eru Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið strandríki þegar fjallað er um makrílveiðar.