Sex í haldi vegna nauðgunar í Nýju-Delí

Indverska lögreglan leiðir einn þeirra grunuðu í réttarsal í Nýju-Delí.
Indverska lögreglan leiðir einn þeirra grunuðu í réttarsal í Nýju-Delí. AFP

Lögreglan í Nýju-Delí á Indlandi handtók í dag þrjá menn sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í að nauðga 51 ára danskri ferðakonu fyrr í vikunni.

Alls hafa nú sex menn verið handteknir, grunaðir um aðild að glæpnum. Talið er að átta menn hafi ráðist á konuna og stóð árásin yfir í um þrjár klukkustundir.

Talsmaður lögreglunnar í Nýju-Delí segir í fréttatilkynningu að þeir sem handteknir voru í dag séu 24 ára, 20 ára og 18 ára. Sá síðastnefndi er vistaður í unglingafangelsi vegna ungs aldurs. 

Allir þeir sem handteknir hafa verið eru heimilislausir. Að auki er talið að þeir séu allir fíkniefnaneytendur.

Í frétt DR - danska ríkissjónvarpsins, er vitnað í frétt í indverska dagblaðinu Times of India. Þar er haft eftir konunni að mennirnir hafi otað að henni hníf og sagt að hún ætti að afhenda þeim eigur sínar. „Þeir tóku um 700 evrur, indverska peninga, iPod, farsíma, gleraugu og bók,“ segir er haft eftir konunni.

„Síðan byrjaði einn mannanna að þreifa á mér og toga í fötin mín. Þegar ég barðist gegn því, hótuðu þeir að stinga mig. Ég grábað þá um að meiða mig ekki.“

Fulltrúar ýmissa samtaka á Indlandi komu saman í dag vegna …
Fulltrúar ýmissa samtaka á Indlandi komu saman í dag vegna málsins og mótmæltu viðhorfi til kvenna. AFP
mbl.is