Alls felldu 93% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness við Starfsgreinasambandið samninginn. Eins var samningur við Samiðn felldur.
Á vef verkalýðsfélagsins kemur fram að um tvo kjarasamninga hafi verið að ræða. Annars vegar í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og hins vegar Samiðn og undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn.
Formaður Verkalýðsfélags Akraness skrifaði ekki undir þessa samninga, en eftir sem áður eru það félagsmenn sjálfir sem taka lokaákvörðunina, segir í frétt á vef félagsins. Á kjörskrá hjá SGS voru 794 félagsmenn í Almennri deild og Matvæladeild og á kjörskrá hjá Samiðn voru 56 félagsmenn Iðnsveinadeildar VLFA.
Niðurstaðan er sú að samningarnir voru báðir felldir, með 93% atkvæða félagsmanna SGS og með 63,6% atkvæða félagsmanna Samiðnar, en rétt er að það eru félagsmenn í Iðnsveinadeild VLFA sem tilheyra Samiðn.