Tekinn af lífi þrátt fyrir mótmæli

Edgar Tamayo Arias
Edgar Tamayo Arias -

Mexíkóskur maður var tekinn af lífi í Texas í nótt þrátt fyrir að mexíkósk yfirvöld séu ósátt við þá málsmeðferð sem hann fékk í dómskerfi Texas.

Edgar Tamayo Arias var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt lögregluþjón í Texas árið 1994. Mikil ólga er meðal mexíkóskra ráðamanna vegna dauðadómsins þar sem talið er að yfirvöld í Texas hafi ekki farið að alþjóðlegum sáttmálum varðandi réttindi útlendinga í dómsmálum. Bandaríska alríkisstjórnin reyndi að fá yfirvöld í Texas til þess að fresta aftökunni án árangurs. Arias var ekki veitt aðstoð frá mexíkóska sendiráðinu þegar hann var handtekinn á sínum tíma og er það brot á Vínarsáttmálanum frá 1963.

Utanríkisráðuneyti Mexíkó hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að láta ekki skugga falla á samskipti ríkjanna tveggja með brotum á alþjóðalögum. Óskað er eftir því að fleiri dauðarefsingum verði ekki framfylgt án þess að mál viðkomandi séu endurskoðuð.

Lögmenn Tamayo, 46 ára, höfðu vonað allt til hins síðasta að hæstiréttur Bandaríkjanna myndi grípa inn og stöðva aftökuna. Lögmenn hans segja að þegar hann var handtekinn árið 1994 hafi hann talað litla sem enga ensku auk þess sem hann er þroskahamlaður. Tamayo var tekinn af lífi í Huntsville fangelsinu í nótt en hann var 16 ára þegar hann myrti lögreglumanninn.

Tamayo var fundinn sekur um að hafa skotið lögreglumanninn Guy Gaddis, 24 ára, til bana í Houston í janúar 1994. Tamayo hafði verið handtekinn fyrir rán og samkvæmt fréttum frá þeim tíma var Tamayo með skammbyssu falda í buxunum. Lögreglan handtók hann skömmu síðar þar skammt frá og var hann með úr Gaddis á sér þegar hann var handtekinn að nýju.

Í yfirlýsingu sem lögmenn hans, Sandra Babcock og Maurie Levin, sendu frá sér kemur fram að ef Tamayo hefði fengið aðstoð frá sendiráðinu hefði hann aldrei verið dæmdur til dauða. 

Árið 2004, fyrirskipaði glæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna bandarískum yfirvöldum að endurskoða mál Tamayo og 50 annarra Mexíkóa sem var neitað um aðstoð frá ræðismanni.

Tamayo er þriðji Mexíkóinn sem tekinn er af lífi í Texas án þess að mál viðkomandi sé endurskoðað og sá fjórði verður tekinn af lífi í apríl.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt ákvörðun yfirvalda í Texas um að taka hann af lífi og hefur Amnesty International fordæmt ákvörðunina enda séu mannréttindi hans fótum troðin í málinu.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, ritaði ríkisstjóra Texas, Rick Perry, bréf seint á síðasta ári og óskaði eftir því að aftökunni yrði frestað og mál fangans endurskoðað. En hvorki Perry né fangelsismálayfirvöld tóku mark á beiðni utanríkisráðherra. Að sögn Perry skiptir engu máli hvaðan þú ert - ef þú fremur jafn fyrirlitlegan glæp og þennan í Texas þá þarftu að hlýða lögum ríkisins.

Fjölskylda Edgar Tamayo Arias bað fyrir honum heima í Mexíkó …
Fjölskylda Edgar Tamayo Arias bað fyrir honum heima í Mexíkó en lík hans verður flutt til heimalandsins og þar verður hann jarðsettur. AFP
mbl.is