Dómari rannsakar hópnauðgun

AFP

Hæstiréttur Indlands hefur skipað dómara til að rannsaka hópnauðgun á ungri konu í þorpi í Vestur-Bengal. Var konunni, sem er tvítug, í refsingarskyni að fyrirmælum höfðingja öldungaráðs í þorpi hennar.

Var fyrirskipað að nauðga henni

Henni var refsað fyrir „þann glæp að verða ástfangin“, eins og lögreglustjórinn C. Sudhakar orðaði það. Hún hafði verið í tygjum við múslíma frá öðru þorpi.

„Samband þeirra hafði staðið í tæp fimm ár. Þegar maðurinn fór á heimili konunnar til að biðja hennar tóku þorpsbúar eftir honum og skipulögðu sýndarréttarhöld,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir lögreglustjóranum.

Konan sem nauðgað var og unnusti hennar voru bundin við tré meðan öldungaráðið dæmdi í máli þeirra. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn og konan ættu að greiða sekt að andvirði 25.000 rúpía hvort, eða sem svarar 46.000 krónum. Maðurinn var látinn laus eftir að hann hét því að greiða sektina innan viku en konan og foreldrar hennar höfðu ekki efni á því.

„Þegar foreldrar stúlkunnar, sem voru á fundinum, sögðust ekki geta greitt sektina fyrirskipaði höfðingi ráðsins þorpsbúum að nauðga henni í refsingarskyni,“ hefur AFP eftir Sudhakar.

Lögreglustjórinn sagði að tólf menn hefðu tekið þátt í nauðguninni og þeir hefðu allir verið handteknir, ásamt höfðingjanum sem fyrirskipaði refsinguna. Konunni var nauðgað á mánudaginn var og fjölskyldan kærði nauðgunina á miðvikudag. Konan var lögð inn á sjúkrahús eftir að hún hafði bent lögreglunni á mennina. Þeir voru leiddir fyrir dómara í bænum Bolpur í gær.

Þrír dómarar í hæstarétti tóku ákvörðun um rannsókn glæpsins. Þeir segjast vera í áfalli vegna árásarinnar á ungu konuna. Málið verður tekið fyrir í hæstarétti þann 31. janúar nk.

Þegar fréttir bárust af hópnauðguninni greip um sig mikil reiði meðal almennings enda margir búnir að fá sig fullsadda af kynbundnu ofbeldi í landinu. Er farið fram á að árásin fái flýtimeðferð í dómskerfinu, samkvæmt frétt BBC.

Ríkisstjórinn í Vestur-Bengal krafðist í gær afsagnar lögreglustjóra héraðsins vegna málsins.

mbl.is