Fundi um stjórnun makrílveiða lauk upp úr hádegi í London án þess að niðurstaða fengist. Ákveðið var að hittast í Bergen að nýju á þriðjudag í næstu viku.
Sigurgeir Þorgeirsson, formaður íslensku nefndarinnar, segir að málin hafi þokast áfram á fundinum, en alls óvíst sé hvort takast megi að ganga frá samningum í næstu viku. Auk Íslands sátu fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja fundinn.