Vilja halda Magnúsi til 1. apríl

Magnús Geir Þórðarson.
Magnús Geir Þórðarson.

Staða leikhússtjóra Borgarleikhússins verður auglýst til umsóknar á næstu dögum. Vonast er til þess að hægt verði að ráða í stöðuna eins fljótt og hægt er, ekki verða gerðar kröfur um tiltekna menntun eða reynslu og ákjósanlegt væri ef Magnús Geir Þórðarson, fráfarandi leikhússtjóri, yrði að störfum til 1. apríl, að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns stjórnar Borgarleikhússins.

Magnús Geir hefur verið ráðinn í starf útvarpsstjóra, en ekki liggur fyrir hvenær hann muni hefjast störf. Stjórn leikhússins hittist í gærkvöldi og þar var ákveðið að staða hans yrði auglýst sem fyrst, en nýr leikhússtjóri er ráðinn af stjórninni sem í sitja fimm manns. Leikhússtjóri er ráðinn í fjögur ár í senn og má endurráða hann einu sinni, þannig að hann getur ekki verið lengur en átta ár. 

„Staðan verður auglýst á vef leikhússins núna í vikunni og mun síðan birtast á síðum blaðanna um helgina. Umsóknarfresturinn verður til 11. febrúar og við munum reyna að vinna þetta eins hratt og vel og við getum með hagsmuni Borgarleikhússins í huga,“ segir Þorgerður Katrín.

Starfslok samkomulagsatriði

Samningur Magnúsar Geirs gildir til ársins 2016 og að sögn Þorgerðar Katrínar er í honum „afar þröngt“ uppsagnarákvæði upp á sex mánuði. 

„Það verður síðan samkomulagsatriði við Magnús Geir hvenær hann hættir og ég hef enga trú á öðru en að við leysum þetta farsællega í sameiningu. En við metum það sem svo að það verði erfitt að missa hann fyrir 1. apríl að öllu óbreyttu. Við vitum auðvitað ekki hverjir munu sækja um og hvort það verði auðvelt fyrir þann sem verður ráðinn að losna strax úr starfi. Í ljósi þess gerum við ráð fyrir því að Magnús Geir verði næstu vikurnar hjá okkur, enda margt framundan og það þarf að klára þetta leikár með sóma. En þetta  verður allt saman metið þegar umsóknir liggja fyrir og ef við sjáum að við erum að fá leikhússtjóra tiltölulega fljótt, þá förum við í það. En við viljum hafa borð fyrir báru.“

Ekki kröfur um tiltekna menntun eða reynslu

Hvaða kröfur eða skilyrði þarf nýr leikhússtjóri að uppfylla? „Það verða ekki gerðar kröfur um tiltekna menntun eða reynslu. Umsækjendur þurfa að lýsa sinni sýn í 800 orðum á hlutverk og verkefni Borgarleikhússins. Það er erfitt að horfa á eftir góðum manni og við bjuggumst ekki við að sjá á eftir honum, en þetta verður skemmtilegt verkefni; að ráða nýjan leikhússtjóra.“

Þorgerður Katrín segist ekki hafa heyrt neitt frá áhugasömu fólki um stöðuna. „Ég bind miklar vonir við að metnaðarfullt og hæfileikaríkt fólk vilji koma til Borgarleikhússins og taka við góðu og öruggu búi. Magnús Geir hefur styrkt innviði leikhússins og markað hér skýra stefnu í góðu samstarfi við annað frábært starfsfólk. Þetta er frábært tækifæri fyrir þann sem verður ráðinn.“

Spurð um hvort nöfn umsækjenda verði gerð opinber segir Þorgerður Katrín það ekki liggja fyrir. „Við eigum eftir að taka afstöðu til þess.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Borgarleikhússins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Borgarleikhússins. mbl.is
Borgarleikhúsið.
Borgarleikhúsið. mbl.is
mbl.is