Tekinn af lífi fyrir morð árið 1991

Herbert Smulls
Herbert Smulls

Maður á sextugsaldri var tekinn af lífi í Missouriríki í nótt fyrir morð sem hann framdi árið 1991. Hann var tekinn af lífi með lyfjablöndu og samþykkti hæstiréttur Bandaríkjanna að þessari aftökuaðferð yrði beitt þrátt fyrir mótmæli lögfræðinga mannsins.

Herbert Smulls, 56 ára, myrti Stephen Honickman skartgripasala og særði eiginkonu hans þegar hann rændi verslun þeirra í úthverfi St. Louis hinn 27. júlí árið 1991.

Ástæðan fyrir því að Smulls leitaði til hæstaréttar er sú að hann var ósáttur við að lyfið pentobarbital væri notað við aftökuna. Í nóvember í fyrra úrskurðaði héraðsdómari í Missouri að fresta bæri aftöku tímabundið vegna þess að hætta væri á að  lyfið, pentobarbital, ylli ónauðsynlegum kvölum við andlátið.

Von er á öðrum úrskurði í máli fanga í Louisiana, Christophers Sepulvados, en taka á hann af lífi í næstu viku með banvænni lyfjablöndu. Sepulvado var dæmdur til dauða fyrir að hafa barið stjúpson sinn til bana og veitt honum hrottalega áverka árið 1992.

Verjendur mannanna tveggja segja að þar sem ekki sé gefið upp hver framleiðir lyfið sé ómögulegt að vita hvort dánarstundin verði þeim óbærileg. Með því sé brotið gegn áttundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar.

Töldu þeir að lyfið sem nota ætti væri það sama og var sannprófað á rannsóknarstofu og notað við aftöku 9. janúar sl. Þá sagði Michael Lee Wilson, er hann var tekinn af lífi, að hann fyndi líkama sinn brenna.

mbl.is