Engin niðurstaða varð á fundum ríkissáttasemjara með þeim ellefu aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem felldu kjarasamningana í Karphúsinu í dag. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS og Einingar-Iðju, segir í samtali við mbl.is að á fundunum hafi menn verið að greina stöðuna og ákveða næstu skref.
„Næsti fundur var ekki ákveðinn en málið er í höndum ríkissáttasemjara þannig að hann metur stöðuna og kallar þá til fundar ef honum finnst ástæða til að gera það,“ segir Björn.
Fundirnir hófust snemma í morgun með fulltrúum Flóabandalagsins og stóðu fram eftir degi.
Þau félög sem felldu kjarasamningana fara nú sjálf með umboð til kjaraviðræðna en það þýðir að ellefu ný mál eru komin til sáttameðferðar hjá ríkissáttasemjara.
Þau félög sem funduðu í dag voru, auk Flóabandalagsins, Eining-Iðja, Báran, Framsýn og Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélag Akraness, Aldan, Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Drífandi, Verkalýðsfélag Snæfellinga og Verkalýðsfélag Grindavíkur.