Bandarísk kona sem var dæmd til dauða fyrir hrottalegt morð á andlega fötluðum manni árið 1999 verður tekin af lífi í kvöld í Texas. Verður hún fjórtánda konan sem er tekin af lífi í Bandaríkjunum eftir að dauðarefsingar voru heimilaðar á ný árið 1976.
Suzanne Basso, 59 ára, verður tekin af lífi með bannvænni lyfjablöndu klukkan sex í kvöld að staðartíma, á miðnætti að íslenskum tíma. Aftakan fer fram í Huntsville-fangelsinu.
Basso, sem er bundin í hjólastól, var handtekin í september 1999 og dæmd fyrir morðið á Louis „Buddy“ Musso árið 1998 en tilgangurinn með morðinu var að hirða líftryggingu hans.
Musso var brenndur með sígarettum, barinn með belti, hafnaboltakylfu og fleiri vopnum af Basso og fimm félögum hennar.
Lík hans fannst í skurði í vegkanti í Houston í ágúst 1998 og var það óþekkjanlegt eftir allt ofbeldið.
Ítrekað hefur verið reynt að fá dauðarefsingunni aflétt án árangurs einkum vegna þess að hún eigi við geðræn vandamál að stríða og bæði vegna andlegs og líkamlegs ástands hennar. Yfirvöld hafa hins vegar ekki fallist á þá röksemdafærslu og telja hana hættulega samfélaginu. Verjendur hennar gagnrýna þá skoðun og segja óskiljanlegt hvernig tæplega sextugur lamaður fangi, sem muni sitja inni til lífstíðar, geti ógnað samfélaginu.
Afar sjaldgæft er að konur séu teknar af lífi í Bandaríkjunum og er hún sú fimmta sem er tekin af lífi í Texas en þar hafa 1.366 verið teknir af lífi eftir að dauðarefsingar voru endurvaktar þar árið 1976.
Ef litið er lengra aftur kemur í ljós að alls hefur 571 kona verið tekin af lífi í Bandaríkjunum frá þeirri fyrstu árið 1632. Það eru tæplega 3% af þeim aftökum sem hefur verið framfylgt í landinu frá árinu 1608.
Síðast var kona tekin af lífi í Bandaríkjunum í júní í fyrra. Það var Kimberly McCarthy, 52 ára, sem var tekin af lífi í Texas fyrir hrottalegt morð á eldri konu.