„Þetta er snúin staða. Það er ljóst að svigrúmið í samningunum var klárað. Það eru þessi 3,5-4% sem Seðlabankinn telur hægt að semja um sem launabreytingar án þess að ógna verðlagsstöðugleika. Sú staða er óbreytt þrátt fyrir niðurstöður atkvæðagreiðslna.“
Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), eftir samningafundi gærdagsins í Karphúsinu.
Fram kom í gær að vantrúar gætti hjá félagsmönnum viðsemjenda SA um að ná mætti sambærilegri kaupmáttaraukningu með lægri nafnlaunabreytingu og minni verðbólgu. „Við höfum bent á að þróunin í janúarmælingu verðbólgu hafi verið talsvert betri en menn gerðu sér vonir um. Hún er ótvíræð vísbending um að við séum á réttri leið. Við teljum fulla ástæðu til að ætla að við verðum komin niður fyrir 2,5% verðbólgu eftir febrúarmælinguna,“ sagði Þorsteinn.