Alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin (IFAW) hvetja forseta Bandaríkjanna til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem duga til þess að hafa jákvæð áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda vegna hvalveiða. Hins vegar hafa samtökin aldrei stutt viðskiptaþvinganir gegn Íslandi frá því að hvalveiðar hófust að nýju árið 2003. Málið snýst um veiðar Íslendinga á langreyði.
„Samtökin hafa þvert á móti lagt ríka áherslu á samstarf við Íslendinga um skynsamlega niðurstöðu, Íslandi og hvölum til hagsbóta. Nú er komið að stjórnvöldum á Íslandi að sýna að þau skilji alvöru málsins,“ segir í yfirlýsingu frá IFAW vegna frétta um að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafi til skoðunar hvort beita eigi Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða þeirra.
Fram kemur að kæra vegna hvalveiðanna hafi verið staðfest af innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sem Obama hafi til skoðunar en hún er byggð á meintum brotum á alþjóðasamningi um bann við verslun með tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu. Rifjað er upp að samskonar kæra hafi verið staðfest af innanríkisráðneyti Bandaríkjanna árið 2011 en Obama hafi þá ákveðið að beita diplómatískum og pólitískum þrýstingi til að fá íslensk stjórnvöld til að stöðva veiðarnar.
Þá segir að mikið sé í húfi fyrir Íslendinga að taka upplýsta ákvörðun og minnt á vöxt hvalaskoðunar innan ferðaþjónustunnar.