Hvetja ekki til viðskiptaþvingana

Alþjóðlegu dýra­vernd­un­ar­sam­tök­in (IFAW) hvetja for­seta Banda­ríkj­anna til þess að grípa til þeirra ráðstaf­ana sem duga til þess að hafa já­kvæð áhrif á af­stöðu ís­lenskra stjórn­valda vegna hval­veiða. Hins veg­ar hafa sam­tök­in aldrei stutt viðskiptaþving­an­ir gegn Íslandi frá því að hval­veiðar hóf­ust að nýju árið 2003. Málið snýst um veiðar Íslend­inga á langreyði.

„Sam­tök­in hafa þvert á móti lagt ríka áherslu á sam­starf við Íslend­inga um skyn­sam­lega niður­stöðu, Íslandi og hvöl­um til hags­bóta. Nú er komið að stjórn­völd­um á Íslandi að sýna að þau skilji al­vöru máls­ins,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá IFAW vegna frétta um að Barack Obama Banda­ríkja­for­seti hafi til skoðunar hvort beita eigi Íslend­inga viðskiptaþving­un­um vegna hval­veiða þeirra.

Fram kem­ur að kæra vegna hval­veiðanna hafi verið staðfest af inn­an­rík­is­ráðuneyti Banda­ríkj­anna sem Obama hafi til skoðunar en hún er byggð á meint­um brot­um á alþjóðasamn­ingi um bann við versl­un með teg­und­ir dýra og plantna í út­rým­ing­ar­hættu. Rifjað er upp að sams­kon­ar kæra hafi verið staðfest af inn­an­rík­is­ráðneyti Banda­ríkj­anna árið 2011 en Obama hafi þá ákveðið að beita diplóma­tísk­um og póli­tísk­um þrýst­ingi til að fá ís­lensk stjórn­völd til að stöðva veiðarn­ar.

Þá seg­ir að mikið sé í húfi fyr­ir Íslend­inga að taka upp­lýsta ákvörðun og minnt á vöxt hvala­skoðunar inn­an ferðaþjón­ust­unn­ar.

mbl.is