Meirihluti Norðmanna vill ekki að norsk stjórnvöld semji um lausn makríldeilunnar á þeim forsendum sem rætt er um á samningafundi sem staðið hefur yfir í London höfuðborg Bretlands undanfarna daga ef marka má niðurstöður netkönnunar sem norska sjávarútvegsblaðið Fiskaren stóð fyrir undanfarna daga.
Samkvæmt könnuninni eru 71,3% Norðmanna andvíg því að semja um lausn makríldeilunnar á þeim forsendum að Ísland fái 11,9% makrílkvótans, Færeyjar 12,4%, Noregur 22,5% og Evrópusambandið 49,9%. Að sögn Fiskaren er það tilboðið sem rætt hefur verið um á fundinum í London. 17,8% Norðmanna eru hins vegar hlynnt því að samið verði á þeim forsendum en niðurstöðurnar eru byggðar á 641 svari.