Ríkisstjóri Washingtonríkis tilkynnti í kvöld að hann ætlaði sér að fresta tímabundið öllum dauðarefsingum, þar sem gallar væru í notkun þeirra. Jay Inslee, sem er úr röðum demókrata, sagðist hafa ákveðið þetta eftir að hafa komist að raun um að ójafnrétti ríkti við beitingu refsingarinnar.
„Það eru of margir gallar í kerfinu,“ sagði Inslee í tilkynningu. „Og þegar lokaákvörðunin er dauði er of mikið í húfi til þess að samþykkja ófullkomið kerfi.“ Níu einstaklingar eru nú á aftökudeild í Walla Walla-ríkisfangelsinu í Washington, en síðasta aftakan fór þar fram árið 2010.
Inslee lagði áherslu á að hann væri ekki að breyta dauðadómi nímenninganna, né heldur væri hann að náða þá. „Ég efast ekki um sekt þeirra eða alvarleika brotanna. Þeir hljóta enga náð hjá mér,“ sagði hann. Hann bætti við að hann teldi ekki að brot þeirra vægju þyngra en gallarnir við dauðarefsingu. Þeirra á meðal nefndi hann að í sumum héruðum ríkisins færi það eftir fjárhag sveitarfélagsins hvort refsingin næði fram að ganga.
Eftir að núgildandi lög um dauðarefsingu í Washington-ríki tóku gildi árið 1981 hafa 18 af þeim 32 sem hafa fengið dauðarefsingu fengið dóm sinn mildaðan í lífstíðarfangelsi, og einn hefur verið látinn laus. 18 ríki, auk höfuðborgarinnar Washington D.C., hafa afnumið dauðarefsingar, og sjö til viðbótar hafa frestað þeim tímabundið. Sagðist Inslee eiga von á því að með ákvörðun sinni myndi Washington-ríki bætast í hóp þeirra sem tækju þátt í samræðu um hlutverk dauðarefsinga.