Frekari fundir í makríldeilunni hafa ekki verið ákveðnir að sögn Sigurgeirs Þorgeirssonar, formanns samninganefndar Íslands, og óljóst hvað verður í þeim efnum. Hann bendir á að tvíhliða viðræður Evrópusambandsins og Norðmanna fari fram í þessari viku og því verði ekki frekari fundir af okkar hálfu í deilunni fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.
„Það kann að verða boðað til fundar en það er allavega alveg öruggt mál að það verður ekki í þessari viku,“ segir Sigurgeir í samtali við mbl.is en hann sat fyrir svörum á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun ásamt öðrum í samninganefnd Íslands. Spurður hvaða tímaramma aðilar makríldeilunnar hafi til þess að ná samkomulagi segir hann að í sjálfu sér sé ekki neinn tímarammi að lokast næstu 1-2 mánuðina.
„Við þurfum að gefa út makrílkvóta fyrir vorið. Evrópusambandið og Noregur hafa þegar gefið út bráðabirgðakvóta til þess að þeir geti lokið sinni vertíð. Veiðitímabilið hjá þeim er frá því á haustmánuðum og fram yfir áramót. Nú hef ég ekki rætt það við þá en ég get ekki betur séð en að þeir hafi svigrúm fram á árið en við þurfum hins vegar að hafa okkar á hreinu fyrir vorið,“ segir hann.
Gefa þurfi út makrílkvóta hér á landi í síðasta lagi einhvern tímann snemma í apríl að sögn Sigurgeirs. Aðspurður segir hann að Færeyingar séu væntanlega í hliðstæðri stöðu. Menn hefðu þannig nokkrar vikur enn til þess að reyna að semja.