Samskiptin við tvær frændþjóðir Íslendinga voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, ofarlega í huga á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Þingmaðurinn gagnrýndi Norðmenn harðlega fyrir að koma fram með sérkennilegum hætti í garð Íslendinga í makríldeilunni.
„Þar í landi fara menn hörðum orðum um okkur Íslendinga og kalla okkur meðal annars sjóræningja á opinberum vettvangi,“ sagði Guðlaugur. Á sama tíma sýndu Norðmenn algera óbilgirni í makríldeilunni og færu fram á að veiða 50-60% umfram ráðgjöf. Það væri þvert á yfirlýsta stefnu bæði Íslendinga og Norðmanna um sjálfbærar veiðar. Sérfræðingar hefðu upplýst að ef farið væri að kröfum Norðmanna gæti það leitt til markaðshruns á makríl. Sagðist þingmaðurinn vona að Norðmenn sýndu það í orði að þeir vildu stunda sjálfbærar veiðar á makríl.
Guðlaugur vakti einnig máls á því að Færeyingar, sem hefðu sýnt það að þeir væru vinir í raun, hefðu ekki fengið svar eftir eins og hálfs árs bið við því hvort þeir mættu lenda nýjum þotum sínum á Reykjavíkurflugvelli í stað eldri tegunda.