Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segist ekki bjartsýnn á að áframhald verði á viðræðum í makríldeilunni, en segir að staða mála verði tekin að loknum viðræðum ESB og Norðmanna um veiðar í lögsögu hvors annars. Staða makrílmálsins var rædd á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í kvöld.
Sigurður Ingi var viðstaddur fundinn, auk Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.
„Við ræddum stöðuna sem upp er komin í kjölfar kröfu Norðmanna um að veiða svona langt umfram það sem ráðgjöf býður og hvaða skref við sjáum að gætu verið næst í stöðunni í ljósi þess að síðustu samningalotu lauk án niðurstöðu,“ segir Sigurður Ingi.
Hver eru þau skref? „Þessa vikuna eiga sér stað tvíhliða viðræður Evrópusambandsins og Norðmanna um þeirra gagnkvæmu samninga á að veiða í lögsögu hvors annars. Við bíðum eftir niðurstöðu þar og í framhaldinu metum við hvort ástæða þyki til að eiga frumkvæði að því að boða til nýs samningafundar.“
Sigurður Ingi segir að þar sem samningaviðræðunum hafi ekki verið slitið, ætti vel að vera hægt að taka upp þráðinn. „En það styttist í að menn þurfi annaðhvort að ná niðurstöðu eða slíta viðræðum, þannig að menn geti þá farið að hugsa til þeirra hagsmuna sem hvert strandríki þarf að hugsa til, jafnvel að úthluta kvóta einhliða.“
Spurður um hvort einhver tímamörk hafi verið sett varðandi það að ná niðurstöðu fyrir tiltekinn tíma segir Sigurður Ingi svo ekki vera. „Við höfum talsverðan tíma framundan, þar sem við hefjum ekki veiðar fyrr en síðla vors. Sá tími er styttri hjá hinum strandríkjunum, sem hefja makrílveiðar fyrr, hjá sumum líklega fljótlega.“
„En það eru engar ákvarðanir sem við stöndum frammi fyrir hér og nú, við erum í sjálfu sér að hinkra eftir því sem kemur út úr þessum viðræðum og hvort eitthvert svigrúm skapist til að hefja samningaviðræður að nýju,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segir að æskilegast væri, ef hægt væri að setjast aftur að samningaborðinu.
„En eftir því sem hver samningalotan á fætur annarri hefur runnið út í sandinn án þess að menn hafi náð saman og kröfur Norðmanna gengið æ meira í þá átt að veiða meira en vísindamenn ráðleggja, þá er ég ekkert mjög bjartsýnn á að það gangi eftir.“