Hagfræðidúx með plötu í maganum

Guðmundur Reynir Gunnarsson segir að árangurinn hafi komið sér skemmtilega …
Guðmundur Reynir Gunnarsson segir að árangurinn hafi komið sér skemmtilega á óvart.

Guðmundur Reynir Gunnarsson útskrifast í lok febrúar með hæstu einkunn sem gefin hefur verið í hagfræðideild Háskóla Íslands, en meðaleinkun hans er 9,55. „Ég stefndi bara á að fá góða einkunn; ég var nú ekkert að stefna á að fá hæstu einkunn,“ segir Guðmundur.

Þetta kom mjög skemmtilega á óvart, ég hafði í raun og veru ekki mikið pælt í þessu hvað aðrir hafi verið að fá,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir að hafa fengið fréttrnar.

Guðmundur útskrifast með BA-próf í hagfræði þann 22. febrúar nk.

Lykilinn að góðum árangri er að læra og lesa vel

Spurður um hverju hann þakki þennan góðan árangur, segir Guðmundur: „Er það ekki bara að læra vel og lesa vel. Er það ekki alltaf þannig. Ég tók þessu alvarlega og lærði mikið fyrir prófin. Ég held að það sé aðallega það sem skilaði sér.“

Ekki skemmi fyrir að hafa áhuga á náminu. „Ég hef mikinn áhuga á þessu. Ég byrjaði í stærðfræði fyrst í HÍ, en ég hélt að það væri ekki alveg sú leið sem ég vildi fara. Ég fór því í hagfræðina og fannst það skemmtilegra,“ segir Guðmundur og bætir við að hann sjái ekki eftir því.

BA-ritgerð hans fjallaði um svokallaða NDF-markaði sem eru framvirkir gjaldeyrismarkaðir án afhendingar. Guðmundur segir að þetta hafi verið spennandi viðfangsefni að skoða í tengslum við íslenska markaði.

„Ég var eiginlega að kynna þennan valkost sem eitthvað sem gæti verið sniðugt á Íslandi. Var að fara yfir kostina og gallana án þess að taka einhverja sérstaka afstöðu til þess.“

Skiptinemi í Harvard

Í ársbyrjun 2012 hélt Guðmundur til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði nám við Harvard-háskóla í eina önn. „Það var bara af eigin frumkvæði; þetta var bara eitthvað sem mig langaði til að gera,“ segir hann.

„Ég bara sótti um,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að þetta hafi verið frábær upplifun. „Það var mjög skemmtilegt til að byrja með en síðan komu prófin; þá var þetta erfitt. En eitthvað sem ég hefði aldrei viljað sleppa að gera.“

Aðspurður segir hann að það hafi verið svolítið önnur upplifun að stunda nám við Harvard miðað við HÍ. „En samt þá er þetta náttúrulega bara háskóli og próf eru alltaf próf.“ Helsti munurinn hafi falist í aukinni þátttöku í tímum yfir önnina.

Stefnan sett á Íslandsmeistaratitilinn

Guðmundur er einnig þekktur knattspyrnumaður sem hefur leikið sem vinstri bakvörður í Íslandsmeistaraliði KR í knattspyrnu. Í lok janúar skrifaði hann undir nýjan þriggja ára samning við liðið. „Við reynum auðvitað er að gera það sama og í fyrra,“ segir Guðmundur galvaskur.

Hann segir lítið mál að samræma námið og knattspyrnuna. „Á sumrin er það boltinn og á veturna læri ég. Þetta er góð skipting.“

Aðspurður segir Guðmundur að það togi ávallt í sig að fara út í atvinnumennsku, en ekkert er hins vegar fast í hendi í þeim efnum. Þá segir hann að allt sé opið varðandi námið, það komi jafnvel til greina að fara út í MA- eða doktorsnám eða fara í MA-nám í hagfræði á Íslandi. „Ég þarf bara að hugsa út í þetta. Ég er ekki búinn að taka neina ákvörðun.“

„Ég er nýbúinn að klára þetta og ætla aðeins að slaka á og hugsa hvað ég ætla að gera.“Hann bætir við að hlutirnir geti aftur á móti breyst fljótt.

Vonast til að gefa út nýja plötu

Guðmundur er þúsundþjalasmiður því tónlist spilar einnig stórt hlutverk í lífi hans, en hann lauk m.a. sjöunda stigi í klassískum píanóleik aðeins 15 ára gamall. Árið 2010 gaf hann út sína fyrstu plötu sem heitir Various Times in Johnny´s life.

Spurður út í tónlistina segir hann: „Ég er alltaf að grúska í tónlistinni líka. Það er stefnan að koma helst út með plötu á árinu. Það eru nokkur lög sem eru tilbúin. Þetta er búið að safnast smá upp; það er orðið langt síðan síðast,“ segir Guðmundur.

Hann segir að það væri gaman ef það væri hægt að taka upp nýja plötu, en aðspurður segist hann eiga nokkuð auðvelt með að semja lög. „Eg er oft eitthvað að spila á píanó eða gítar, þá bara kemur þetta stundum. Maður hefur litla stjórn á þessu,“ segir hann.

„Maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir hagfræðidúxinn að lokum.

Guðmundur á fullri ferð í leik með KR í fyrra.
Guðmundur á fullri ferð í leik með KR í fyrra. mbl.is/Eva Björk
Guðmundur gaf út sína fyrstu plötu árið 2010 og hann …
Guðmundur gaf út sína fyrstu plötu árið 2010 og hann stefnir að því að gefa út nýja plötu á þessu ári. mbl.is/Eggert
mbl.is